Beint í efni

Ráðstefnur eða vinaferðir að vetri

Húsavík er frábær áfangastaður fyrir ráðstefnur, viðburði og vinaferðir að vetri til. Í bænum er stærsta ráðstefnuhótel Norðurlands, með 110 herbergjum og 9 ráðstefnusalum – þar á meðal stórum sal sem rúmar allt að 350 gesti. Slíkt húsnæði gerir Húsavík að einstaklega hentugum stað fyrir bæði minni hópa og stærri viðburði.

Upplagt er að slaka á í Sjóböðunum sem bjóða upp á róandi upplifun í náttúrulegum heitum sjó með stórbrotnu útsýni yfir Skjálfandaflóa. Í bænum má einnig finna Húsavík Öl, handverksbrugghús á heimsmælikvarða, og hið einstaka Hvalasafn hvar meðal annars má finna beinagrind úr 25 metra löngum steypireyð! Þar að auki eru Safnahúsið og Eurovision-safnið á meðal spennandi menningarstaða sem gleðja gesti á öllum aldri. Ekki má gleyma hinu frábæra skíðasvæði við Reyðarárhnjúk hvar gönguskíðabrautir og alpagreinar njóta sín vel.

Á Húsavík eru líka margar skemmtilegar verslanir þar sem gestir geta notið þess að rölta um og gleyma sér í notalegri vetrarstemmingu. Allt þetta gerir Húsavík að frábærum og lifandi áfangastað yfir vetrarmánuðina – bæði fyrir vinnu og skemmtun.

© Visit North Iceland